Um Vesturbyggð
Vesturbyggð er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum sem samanstendur af þremur byggðakjörnum auk dreifbýlis sem mynda saman fjölbreytt og kraftmikið samfélag í stórbrotnu umhverfi.
Sveitarfélagið varð til í núverandi mynd þann 19. maí 2024 við sameiningu Vesturbyggðar hinnar fyrri og Tálknafjarðarhrepps. Fyrrum voru sex hreppar á suðursvæði Vestfjarða, það voru Barðastrandahreppur, Ketildalahreppur, Patrekshreppur, Rauðasandshreppur, Suðurfjarðahreppur og Tálknafjarðarhreppur. Þann 1. júlí árið 1987 voru Ketildalahreppur og Suðurfjarðahreppur sameinaðir í Bíldudalshrepp og þann 11. júlí 1994 sameinuðust Bíldudalshreppur, Barðastrandahreppur, Patrekshreppur og Rauðasandshreppur í Vesturbyggð. Sameiningartillagan var þá felld í kosningum á Tálknafirði. Haustið 2023 var kosið á ný um sameiningu og var sameining Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar samþykkt.
Land og náttúra
Vesturbyggð teygir sig frá Látrabjargi í vestri – sem er vestasti punktur Evrópu – um Rauðasand, Barðaströnd, Patreksfjörð, Tálknafjörð og sunnanverðan Arnarfjörð. Þar eru þrír þéttbýliskjarnar, það er á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal, auk dreifbýlis á Barðaströnd og víðar. Á Patreksfirði bjuggu 756 árið 2024, á Tálknafirði 234 og á Bíldudal 256.
Svæðið er þekkt fyrir fjölbreytta og einstaka náttúru, þar sem stórbrotnir klettar, friðsælir firðir og lítt snortin víðerni mynda bæði fagurt landslag og mikilvægt búsvæði fyrir fjölbreytt fuglalíf. Svæðið laðar að sér náttúruunnendur hvaðanæva að. Af helstu náttúruperlum má nefna Látrabjarg, Rauðasand, Hvestu og Foss í Fossfirði.
Saga og menning
Byggð á svæðinu nær aftur til landnámsaldar og víða má finna sögulegar minjar, til að mynda á Hnjóti í Örlygshöfn, þar sem einnig er Minjasafn Ólafs Egilssonar sem dregur upp mynd af lífinu eins og það var í sveitum og sjávarplássum Vestfjarða. Hrafna-Flóki Vilgerðarson nam land í Vatnsfirði á Barðaströnd, munnmæli segja að Hrafna-Flóki hafi fyrstur haft vetursetu á Íslandi í Flókatóftum, rétt utan við bryggjuna á Brjánslæk.
Menningarlífið stendur sterkt, þar má nefna bæjarhátíðir á borð við Sjómannadaginn á Patreksfirði, Bíldudals grænar baunir og Tálknafjör, auk menningarhátíða eins og Skjaldborg – Hátíð íslenskra heimildarmynda, Alþjóðlegu píanóhátíð Vestfjarða, Listahátíð Samúels í Selárdal og tónlistarhátíðina Blús milli fjalls og fjöru.
Vesturbyggð er rík af söfnum á sýningum, en auk safnsins að Hnjóti má nefna Listasafn Samúels í Selárdal, Melódíur minninganna á Bíldudal og sýningu um frönsku fiskimennina og gamla tímann á Patreksfirði.
Í Vesturbyggð starfa þrjú almenningsbókasöfn og öflugur tónlistarskóli. Auk þess er sveitarfélagið virkt í samstarfi við aðra aðila um uppbyggingu í menningarmálum, svo sem Vestfjarðastofu, og veitir sérstaka styrki til menningar- og ferðamála.
Atvinnulíf
Helstu atvinnugreinar eru sjávarútvegur, fiskeldi, ferðaþjónusta og opinber þjónusta. Bíldudalur og Patreksfjörður eru meðal helstu hafna svæðisins og þar starfa fyrirtæki í tengdum greinum. Ferðaþjónustan hefur einnig vaxið hratt á síðustu árum og byggir á sérstöðu náttúru, menningar og afskekkts aðdráttarafls.
Samgöngur hafa ávallt verið áskorun á Vestfjörðum, en mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár til dæmis með tilkomu Dýrafjarðarganga, brúar yfir Þorskafjörð og uppbyggingar Dynjandisheiðar. Enn er þó unnið að því að tryggja öruggar heilsárstengingar milli byggðalaga á sunnanverðum Vestfjörðum.
Samfélag og stjórnsýsla
Vesturbyggð er sveitarfélag sem starfar samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Meginmarkmið sveitarfélagsins eru að efla lífsgæði íbúa, tryggja trausta þjónustu og vinna að sjálfbærri þróun í takt við samfélagið og náttúruna. Í sveitarfélaginu eru leikskólar, grunnskólar, íþróttamiðstöðvar og sundlaugar, tónlistarskóli, félagsmiðstöðvar, félagsstarf eldra fólks, íþróttaskóli auk annarar þjónustu.