Almyrkvi á sólu 2026
Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sjáanlegur á vestanverðu Íslandi, þar á meðal í Vesturbyggð, og varir hann lengst á Látrabjargi. Sveitarfélagið leggur áherslu á öryggi og góða upplifun íbúa og gesta. Á þessari síðu má finna helstu upplýsingar um almyrkvann og undirbúning sveitarfélagsins. Síðan verður uppfærð reglulega fram að atburðinum. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með uppfærslum og gestir eru hvattir til að skipuleggja ferðir tímanlega og dvelja í lengri tíma á svæðinu til að létta á umferðarálagi.
Spurt og svarað
Hvað er almyrkvi?
Almyrkvi á sér stað þegar tunglið gengur beint milli sólar og jarðar og skyggir alveg á sólina í örfáar mínútur. Á þeim tíma verður dimmt og hitastig getur jafnvel lækkað lítillega. Fyrir og eftir almyrkva sést deildarmyrkvi, það er þegar tunglið skyggir á hluta sólar.
Almyrkvar eru sjaldgæfir og sjást aðeins frá mjóu belti á jörðinni. Almyrkvi hefur ekki sést á Íslandi síðan 1954.
Hvenær má sjá almyrkvann?
Almyrkvinn verður seinnipartinn miðvikudaginn 12. ágúst 2026. Hann verður sjáanlegur um allt sveitarfélagið en tímasetningar og lengd eru breytilegar eftir staðsetningu.
Á heimasíðunni Solmyrkvi2026.is má smella á stað á korti og sjá nákvæmlega hvenær deildarmyrkvi hefst, hvenær almyrkvi hefst og lýkur og hvenær deildarmyrkva lýkur aftur. Þar má einnig sjá kort yfir skugga og svæði þar sem almyrkvi verður ekki sjáanlegur.
Á Látrabjargi varir almyrkvinn í tvær mínútur og þrettán sekúndur.
Hvar er best að horfa á almyrkvann?
Íbúar eru hvattir til að horfa á sólmyrkvann heima hjá sér ef aðstæður leyfa. Það er ekki skylda en gæti reynst öruggast þar sem möguleiki er á þungri umferð og álagi á innviði. Þá er gott að hafa í huga að ef gestafjöldi verður verulegur gæti skapast tímabundinn vöruskortur á svæðinu.
Sveitarfélagið mun jafnframt skilgreina sérstök áhorfssvæði sem kallast söfnunarsvæði. Þau verða valin með það í huga að tryggja gott útsýni og öruggar aðstæður. Markmiðið er að dreifa áhorfendum á skipulagðan hátt, draga úr álagi á ákveðnum stöðum og skapa ánægjulega upplifun fyrir gesti. Á svæðunum verður grunnþjónusta til staðar svo sem salerni. Nánari upplýsingar um söfnunarsvæði verða birtar síðar.
Hvar fæ ég sólmyrkvagleraugu?
Sveitarfélagið tók þátt í sameiginlegri pöntun sveitarfélaganna á Vestfjörðum á sólmyrkvagleraugum. Um 1900 sólmyrkvagleraugu verða afhent þegar nær dregur almyrkvanum en nánari upplýsingar um afhendingu þeirra verða birtar síðar.
Sólmyrkvagleraugun eru úr silfurhúðaðri filmu sem síar skaðlega geisla og hleypir aðeins örlitlu ljósi í gegn. Hættulegt er að horfa beint á sólina án slíkra gleraugna þar sem innrauðir og útfjólubláir geislar sólarinnar geta valdið varanlegum augnskaða. Venjuleg sólgleraugu duga ekki þar sem þau sía ekki skaðlega geislun nægilega vel.
Gleraugun þarf að hafa á sér allan tímann sem deildarmyrkvinn varir, bæði fyrir og eftir almyrkva. Aðeins á meðan almyrkvinn sjálfur stendur, þegar sólin er alveg hulin, má taka þau af. Sólmyrkvagleraugun eru margnota.
Hvað er búist við mörgum gestum?
Erfitt er leggja mat á nákvæman fjölda gesta á þessu stigi. Nokkrir þættir liggja ekki fyrir enn, svo sem fjöldi ferðamanna á landinu á þessum tíma, bókunarstaða gistirýma í sveitarfélaginu og umfang skipulagðra ferða á svæðið. Þá munu veður- og skýjahuluspár líklega hafa mikil áhrif á lausatraffík en þær munu ekki liggja fyrir fyrr en nokkrum dögum áður.
Óskað er eftir að ferðaþjónar sem taka við bókunum fyrir gistirými eða ferðir á þessum tíma hafi samband við menningar- og ferðamálafulltrúa til að auðvelda sveitarfélaginu að spá fyrir um gestafjölda.
Hvernig er með umferðarstýringu?
Umferðarstýring er ein stærsta áskorunin við undirbúning almyrkvans, ekki síst í ljósi þess að áætlaður gestafjöldi liggur ekki fyrir. Áform um umferðarstýringu á Látrabjargi og innan sveitarfélagsins liggja því ekki fyrir sem stendur.
Lögreglan á Vestfjörðum ber ábyrgð á umferðarstýringu og starfar í nánu samstarfi við sveitarfélagið.
Látrabjarg er friðlýst svæði í umsjón Náttúruverndarstofnunar sem ber því ábyrgð á fyrirkomulagi á svæðinu.
Hvernig verður öryggisgæslu háttað?
Öryggisgæsla og skipulag almannavarna eru á borði lögreglu og viðeigandi viðbragðsaðila.
Get ég bókað pláss á tjaldsvæðum Vesturbyggðar?
Ekki er gert ráð að tekið verði upp sérstakt bókunarkerfi á tjaldsvæðum Vesturbyggðar og gildir meginreglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Nánari upplýsingar veita rekstraraðilar tjaldsvæða. Stórir hópar eru þó hvattir til að hafa samband við rekstraraðila með góðum fyrirvara.
Nánari upplýsingar
Eftirfarandi aðilar veita nánari upplýsingar:
- Aðkoma sveitarfélagsins: Á heimasíðu Vesturbyggðar. Menningar- og ferðamálafulltrúi veitir einnig upplýsingar og tekur við ábendingum og hugmyndum.
- Almennt um sólmyrkvann: Á heimasíðunni Sólmyrkvi2026.is.
- Um Látrabjarg: Náttúruverndarstofnun Íslands.
- Um öryggi, umferðarstýringu og almannavarnir: Lögreglan á Vestfjörðum.
- Um markaðssetningu Vestfjarða: Markaðsstofa Vestfjarða.