Nýtt bókunarkerfi fyrir félagsheimilin
Öll félagsheimili sveitarfélagsins eru komin í bókunarkerfi Noona. Framvegis fara allar bókanir þar í gegn. Reikna má með smávægilegum hnökrum á meðan kerfið er fínstillt.
Nýtt bókunarkerfi fyrir félagsheimili Vesturbyggðar, það er félagsheimili Patreksfjarðar, Tálknafjarðar (Vindheima þar á meðal), Birkimel og Baldurshaga, hefur verið tekið upp í gegnum heimasíðu Noona. Frá og með birtingu þessarar fréttar munu allar bókanir á félagsheimilunum fara þar í gegn. Við innleiðingu kerfisins má búast við þónokkrum hnökrum sem unnið verður að því að laga, leigjendur eru beðnir um að sýna því skilning og þolinmæði. Forstöðumenn félagsheimilanna fylgjast með bókunum og leysa úr málum ef þörf krefur.
Markmiðið með upptöku bókunarkerfis er notendavænna ferli við bókun félagsheimilanna. Kerfið auðveldar og einfaldar leigjendum að bóka, afbóka og breyta bókunum og gefur betra yfirlit yfir verð og bókunarstöðu eftir dögum.
Athygli er vakin á því að verðið sem gefið er upp við bókun er með fyrirvara um breytingar. Sé til dæmis óskað eftir aukaþjónustu, svo sem kaffi á fundum eða uppröðun/frágangi, verður því bætt við reikninginn sem leigjandinn fær. Þá mun upphæð leigu miðast við gjaldskrá Vesturbyggðar á leigudegi en gjaldskráin er uppfærð um hver áramót. Það þýðir að bóki leigjandi félagsheimili fyrir áramót en leigudagurinn er eftir áramót miðast leigan við leigudag en ekki þann dag sem bókað er.
Leigjendur eru eindregið hvattir til að koma ábendingum og hugmyndum að betrumbætingum á framfæri við menningar- og ferðamálafulltrúa. Eins geta leigjendur haft samband við forstöðumenn á vinnutíma um hvað sem er tengt kerfinu og félagsheimilunum.
Leiðbeiningar við bókun, spurt & svarað og aðrar upplýsingar
Á undirsíðu um félagsheimilin má finna allar helstu upplýsingar, þar á meðal:
- Nánari upplýsingar um bókunarkerfið, þar á meðal leiðbeiningar, spurt&svarað og gjaldskrá
- Almennar upplýsingar um hvert félagsheimili, þar á meðal gátlista yfir þrif og frágang sem ætlast er til að leigjendur standi skil á
- Reglur félagsheimila Vesturbyggðar, sem leigjendur eru beðnir um að kynna sér fyrir leigu