Framboð til heimastjórna
Allir íbúar hvers svæðis eru í framboði til heimastjórnar og kýs hver íbúi einn einstakling á því svæði sem hann býr. Þau sem gefa sérstaklega kost á sér í býðst að kynna sig og sín áhugamál á þessari síðu. Kynningar verða settar inn jafnóðum og þær berast, tekið verður við kynningum á netfangið muggsstofa@vesturbyggd.is til fimmtudags 2. maí klukkan 12:00.
Framboð til heimastjórnar Arnarfjarðar
Jón Þórðarson
Gilsbakka 8, 465 Bíldudal
Ágætu íbúar Arnarfjarðar í Vesturbyggð.
Ég, Jón Þórðarson, Gilsbakka 8 465 Bíldudal, hef ákveðið að bjóða mig fram til heimastjórnar í komandi kosningum 4. maí 2024.
Það geri ég vegna áhuga um míns og væntumþykju á því samfélagi sem við byggjum. Það verður væntanlega af ýmsu að taka á því sviði er heimastjórnum er ætlað. Væntanlega koma þar umhverfismál inn, svo og mörg önnur málefni. Mín trú er að þetta fyrirkomulag er varðar heimastjórnir muni hafa þegar fram líða stundir jákvæð áhrif á okkar samfélag.
Sumir þekkja mig og vita hvað ég hef fengist við í gegnum ơðina, en það er ýmislegt. Til dæmis; sjómennska, fiskvinnsla, útgerð, endurbygging mannvirkja, verslunar rekstur og ferðaþjónusta svo nokkuð sé nefnt.
Ég er tilbúinn til að vinna með hverjum sem er að framgangi okkar góða samfélags á ýmsum sviðum ef ég
fæ brautargengi til í kosningum 4. maí 2024.
Góðar kveðjur
Jón Þórðarson, Bíldudal.

Framboð til heimastjórnar Patreksfjarðar
Sveinn Jóhann Þórðarson
Urðargötu 7, Patreksfirði
Kæru nágrannar,
Sveinn Jóhann Þórðarson heiti ég og starfa í fiski og ýmsu barnastarfi. Ég hef brennandi áhuga á því að taka þátt í starfi heimastjórnar, þá sérstaklega með það að markmiði að gera okkur að stærra og öflugra samfélagi. Ég tel að til þess þurfum við nokkra hluti til að við getum aukið þjónustu í okkar blessuðu byggð.
Okkur vantar að fá lágvöruverslun, tannlækni sem annað hvort býr hér eða kemur reglulega, fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki svo við séum með öruggri stoðir fyrir samfélagið. Ég vil ýta á verðandi bæjarstjórn að efla tómstundastarf, þá sérstaklega fyrir 5. – 7. bekk og framhaldsskólanema sem vantar skipulagt starf og aðstöðu fyrir mikilvægt forvarnarstarf.
Kær kveðja,
Sveinn Jóhann Þórðarson.

Framboð til heimastjórnar Rauðasandshrepps og Barðastrandar
Ástþór Skúlason
Melanesi, Rauðasandi
Ágætu íbúar Barðastrandar- og Rauðasandshrepps hinna fornu.
Ég Ástþór Skúlason á Melanesi Rauðasandi hef ákveðið að bjóða fram krafta mína til setu í heimastjórn í komandi kosningum þann 4. maí næstkomandi ef fólki hugnast að veita mér gengi til.
Það geri ég af áhuga og væntumhyggju á þeirri náttúru og því samfélagi sem við búum í og mér er mikið í mun að greiða götu þess til uppbyggingar og varðveislu sem frekast er kostur. Ég hef ekki háskólagráður til að státa af en ég tel mig þó hafa ágæta þekkingu á þeirri náttúru og lífríki sem við búum í.
Í von um að sem flestir geti nýtt sér atkvæðisrétt sinn þann 4. maí.
Kærar kveðjur
Ástþór Skúlason

Edda Kristín Eiríksdóttir
Grjóthólum, Barðaströnd
Ágætu sveitungar,
Ég gef kost á mér til setu í heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps. Heimastjórnum er ætlað að tryggja áhrif og aðkomu heimafólks að þeim ákvörðunum sem teknar eru í sveitarfélaginu, ásamt því að koma málum á dagskrá bæjarstjórnar. Ef þið treystið mér til starfa þá treysti ég mér í verkefnið.
Ég er fædd á Patreksfirði 1973 og alin upp að hálfu hjá móðurforeldrum mínum í Haga. Ég er sagnfræði- og ferðamálafræðimenntuð, með leiðsögumannspróf, landvarðaréttindi og diplómu í opinberri stjórnsýslu. Um þessar mundir vinn ég að því að klára MPA nám í opinberri stjórnsýslu í HÍ.
Ég hef starfað hjá hinu opinbera frá árinu 2012, fyrst hjá Þjóðskrá Íslands sem deildarstjóri en sem svæðissérfræðingur á sunnanverðum Vestfjörðum í náttúruverndarteymi Umhverfisstofnunar frá ársbyrjun 2017. Ég tel að reynsla mín og
menntun úr stjórnsýslunni muni nýtast vel í þeim verkefnum sem heimastjórnum verða falin.
Mál sem eru mér hugleikin eru verndarsvæði og virðing fyrir gæðum náttúrunnar, samgöngubætur og þjónusta. Fyrir sveitirnar tel ég sérstaklega brýnt að vel sé búið að fjölskyldufólki þar eð grundvöllur þess að samfélög eigi sér von um sjálfbæra framtíð felst beinlínis í því að þar sé með góðu móti hægt að koma börnum á legg.
Með vinsemd
Edda Kristín Eiríksdóttir, Grjóthólum
